thorunn_elinÞórunn Elín Pétursdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur. Þaðan lauk hún B. Mus. prófi vorið 2004. Veturinn 2002–2003 var hún skiptinemi við Universität der Künste í Berlín. Aðalkennari hennar þar var prof. Ute Niss. Hún hefur sótt mörg meistaranámskeið í söng bæði heima og erlendis, m.a. hjá Joy Mammen, Franco Castellana, Karan Armstrong, Mörthu Sharp, Giovanna Canetti, Galinu Pisarenko og Kristni Sigmundssyni. Síðustu ár hefur hún notið leiðsagnar Sigríðar Ellu Magnúsdóttur. Þórunn Elín fór með hlutverk Saffiar í uppsetningu Óperustúdíós LHÍ og Íslensku Óperunnar á Sígaunabaróninum. Hún fór með hlutverk Huldu, söngkonu, í Gýpugarnagauli, barnasýningu Möguleikhússins, sem frumsýnd var í apríl 2011. Þórunn Elín kemur fram sem einsöngvari við ýmis tækifæri og heldur reglulega einsöngstónleika.


olöf_cello_1Ólöf Sigursveinsdóttir fór í fyrsta sellótímann sinn 6 ára gömul.  Meðal kennara hennar voru Nora Kornblueh og Bryndís Halla Gylfadóttir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Eftir eitt ár sem fastráðinn hljóðfæraleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt Ólöf til Stuttgart í Þýskalandi þar sem hún innritaðist í einleikaradeild Listaháskólans og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn sumarið 2001. Þar naut hún leiðsagnar Prof. Hans Häublein og stundaði nám í stjórnun auk sellóleiksins. Síðan Ólöf lauk námi hefur hún meðal annars lagt stund á flutning gamallar tónlistar og er einn af stofnendum Barokkbandsins ReykjavíkBarokk sem hefur haldið fjölda tónleika á sl árum víða um land. Ólöf hefur haldið tónleika í Danmörku, Þýskalandi, Sviss og á Íslandi. Ásamt Margréti Hrafnsdóttur sópransöngkonu gaf hún út geisladiskinn “Hjartahljóð”. Á honum eru íslensk þjóðlög í útsetningum Sigursveins D. Kristinssonar og Hallgríms Jakobssonar.  Frá árunum 2008-2011 starfaði Ólöf sem dagskrárgerðarmaður á rás 1. Sem stendur leikur hún með Sinfóníuhljómsveit Íslands og starfar sem sellókennari við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Ólöf er nýkomin úr Skálholti þar sem ReykjavíkBarokk kom fram á Sumartónleikum í Skálholtskirkju. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Berjadaga síðan árið 2013.


011Sólveig Anna Jónsdóttir er fædd á Akureyri. Hún hóf píanónám hjá Ragnari H. Ragnar á Ísafirði en nam síðar við Tónlistarskólana á Akureyri og í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún hjá Nancy Weems við háskólann í Houston í Texas. Sólveig Anna hefur lengst af haft píanókennslu og meðleik að aðalstarfi, en gegnir nú stöðu aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla Garðabæjar.
Meðfram kennslu hefur Sólveig Anna tekið virkan þátt í tónlistarlífinu, haldið fjölda tónleika hérlendis og erlendis sem meðleikari einsöngvara og kóra, leikið kammertónlist og tekið þátt í flutningi verka með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperunni og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.


_MG_0290Hanna Þóra Guðbrandsdóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akranesi árið 1996. Haustið 1999 innritaðist hún í Söngskólann í Reykjavík og hafa kennarar hennar þar verið Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Signý Sæmundsdóttir og Kolbrún Sæmundsdóttir. Þaðan lauk hún 8. stigsprófi vorið 2005. Hún hefur stunda söngnám bæði í Kaupmannahöfn, Berlín og Osló síðustu árin.
Hún hefur sótt meistaranámskeið og söngtíma hjá ýmsum kennurum m.a. Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Krisjáni Jóhannsyni, André Orlowitz, Lauru Brooks Rice, Janet Williams, Kristni Sigmundssyni, Jónasi Ingimundarsyni og Margaret Singer.
Hanna Þóra hefur sungið ýmis hlutverk og má þar nefna hlutverk Genovefa úr Systir Angelica eftir Puccini, Greifynjuna í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart  og hlutverk Fiordiligi í Cosí fan tutte eftir Mozart. Hlutverk Ines í Óperunni Il Trovatore eftir Verdi. Hlutverk Serpinu úr La serva Padrona eftir Pergolesi. Hlutverk Daggarálfsins og Óla lokrbrá í barnaóperunni Hans og Grétu. Hanna Þóra var einsöngvari í Óperunni Ragnheiði eftir þá Gunnar Þórðarsson og Friðrik Erlingsson sem sett var upp af Íslensku Óperunni vorið 2014. Hún fór líka með hlutverk í óperunni Skáldið og Biskupsdóttirinn eftir þær Alexöndru Chernyshova og Guðrúnu Ásmundsdóttur sem var frumflutt í Hallgrímskrikju í Saurbæ vorið 2014. Hanna Þóra söng sópran hlutverkið í Oratorio de Noél eftir Camilli Saint Saens í desember 2014.Hún syngur í tónleikaröð Classical Concert Company Reykjavík,sem fer fram í Hörpu ár hvert.Sumarið 2008 var Hanna Þóra valin til þess að syngja í Internationaler Hans Gabor Belvedere competiton. Það er ein stærsta keppni í heimi fyrir unga og upprennandi óperusöngvara.Hún hefur marg oft haldið tónleika, sungið sem einsöngvari með Ýmsum kórum og við Kirkjulegar athafnir.Hún var bæjarlistamaður Akraness árið 2011.Í júlí 2015 söng Hanna Þóra Hlutverk Gerhilde í Die Walkure eftir Wagner í Norsku Óperunni.


012Jón Þorsteinsson söngvari hóf tónlistarnám ungur að árum hjá Magnúsi Magnússyni í Tónskóla Ólafsfjarðar. Hann stundaði seinna nám hjá Marit Isene við Tónlistarháskólann í Osló í Noregi, við Det Jydske Musikkonservatorium í Árósum og hjá Arigo Pola í Modena á Ítalíu. Hann kom víða fram sem einsöngvari sem og kórsöngvari í útvarps- og óperukórum. Jón hefur starfað í Hollandi frá 1980 og söng hann meðal annars yfir 40 hlutverk á þeim tíma hjá Hollensku ríkisóperunni sem og víðs vegar við óratoríu- og ljóðaflutning. Einnig var hann meðlimur í Óperustúdíói Hollensku ríkisóperunnar frá 1982 til 1985. Jón naut leiðsagnar hollensku söngkonunnar Aafje Heynis frá 1986-1995 og byrjaði sjálfur að kenna upp úr 1982. Frá 1993 hefur hann einbeitt sér að söngkennslu, raddþjálfun og kennslufræði og frá 2008 hefur hann starfað sem prófessor í söng við Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi. Á árunum 1998 til 2003 og frá 2008 til 2010 stundaði Jón nám við Lichtenberg Institut für angewandte Stimmphysiologie. Hann hefur haldið masterklassa frá 1985 á Íslandi, í Hollandi, Þýskalandi, Danmörku, Bandaríkjunum og Belgíu. Hann kenndi auk þess um nokkurra ára skeið við Jette Parker Young Artist Program við Royal Opera House, Covent Garden í Lundúnum.


húfumyndGuðmundur Ólafsson. Fæddur í Ólafsfirði 1951.
Síðustu þrjá áratugi aðallega unnið við leiklist, sem leikari, leikstjóri og við talsetningu teiknimynda. Einnig sem höfundur bóka fyrir börn og unglinga, leikrita og söngtexta. Tvisvar sinnum hlotið “Íslensku barnabókaverðlaunin”. Er að hefja nýjan starfsferil sem smíðakennari.


Sigrún_mamma_IMG_535_6_2Sigrún Valgerður Gestsdóttir söngkona.
Sigrún hóf söngnám hjá Guðrúnu Sveinsdóttur og Engel Lund við Tónlistarskólann í Reykjavík. Framhaldsnám stundaði hún við Royal Academy of Music í London hjá Marjorie Thomas, í Kalamazoo, Bandaríkjunum í söngstúdíói Fay Smith, við Tónlistarháskólann í Vínarborg hjá Svanhvíti Egilsdóttur og hjá Susanne Eken og Birgit Bastien í Danmörku. Sigrún hefur komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, sungið hlutverk í Íslensku óperunni, starfað með sönghópnum Hljómeyki og komið fram á tónleikum hér heima og erlendis. Árið 2011 hljóðritaði Sigrún öll sönglög Sigursveins D. Kristinssonar sem komu út á tvöföldum diski á vegum Smekkleysu og var útgáfan tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Sigrún kennir við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar​.


Sigursveinn - Version 3Sigursveinn Magnússon.
Að loknu nám hér heima í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar stundaði Sigursveinn Magnússon framhaldsnám við Royal Academy of Music í London og síðar við Western Michigan University í Bandaríkunum. Þessi ár lagði hann stund á nám í hornleik, píanóleik og hljómsveitarstjórn. Síðar nam hann við Tónlistarháskólann í Vínarborg og dvaldi eitt námsár í Danmörku. Ásamt störfum sínum sem tónlistarskólastjóri hefur Sigursveinn starfað að félags- og skipulagsmálum á sviði tónlistar, verið virkur sem útsetjari, kvæðamaður, kórsöngvari og meðleikari og stjórnað hljómsveitum og kórum.


Kjartan Guðnason.
Kjartan hóf tónlistarnám 12 ára gamall í Tónlistarskóla Seltjarnarness. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskóla F.Í.H. Að loknu námi á Íslandi stundaði Kjartan framhaldsnám í slagverksleik við Conservatorium van Amsterdam í Hollandi. Hann lék með Sinfóníuhljómsveit Æskunnar undir stjórn Paul Zukofsky frá 1986 og var slagverksleiðari í Orkester Norden árin 1994 og 1995. Kjartan hefur í aldarfjórðung leikið reglulega með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hljómsveit Íslensku óperunnar og Caput. Hann hefur komið víða fram erlendis með Concertgebouw hljómsveitinni í Amsterdam, Bach Collegium Japan og Orchestra of the Eighteenth Century undir stjórn Frans Brüggen.

montagnole